SEM logo

SEM logo

SEM logo

stjorn19

Búið er að draga út vinningstölur úr happdrætti SEM samtakanna 2020.

Undanfarna áratugi hafa SEM samtökin staðið fyrir happdrætti sem hefur verið ein helsta tekjulind samtakanna. Ágóðinn hefur m.a. stuðlað að uppbyggingu á húsnæði fyrir fólk með mænuskaða og réttindabaráttu af ýmsum toga.

Við þökkum öllum sem tóku þátt í happdrættinu kærlega fyrir ómetanlegan stuðning, án ykkar væru SEM samtökin ekki til í núverandi mynd.

Athygli er vakin á að vinninga ber að vitja innan árs.
Frekari upplýsinga má nálgast í síma 588-7470
Meðfylgjandi vinningaskrá:

Skoða vinningaskrá...

Dregið verður í happdrætti SEM á morgun, föstudaginn 21. febrúar. Um leið og tölur berast í hús verða þær birtar hér á síðunni. Samkvæmt fyrri reynslu gæti það dregist fram að kvöldmat, en vonandi fyrr.

SEM þakkar miðahöfum kærlega fyrir þátttökuna.

Stjórn SEM samtakanna bendir félagsmönnum á að hægt er að sækja um hinn árlega íþróttastyrk til 29. febrúar n.k. Eftir þann tíma fellur réttur til greiðslu niður. Athygli er vakin á að styrkurinn nær einnig yfir nudd, sjúkraþjálfun og annað sambærilegt.
 Hámarksupphæð er 20.000 kr. Til að eiga rétt á styrk þarf félagsmaður að hafa greitt félagsgjöld síðastliðið ár og skila inn greiðslukvittun. Einnig þarf að fylla út umsóknareyðublað sem nálgast má á skrifstofu SEM og á sem.is, undir styrkir. Umsókn skilast á skrifstofu og verður tekin fyrir á næsta stjórnarfundi.
 Vinsamlegast athugið að eitthvað ólag er á rafrænum skilum í gegnum heimasíðu sem.is
 Skrifstofan er opin á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 13.00-15.30.
Stjórn SEM

Fimmtudaginn 19. desember veitti Sorpa fjölmörgum félagasamtökum glæsilega styrki við hátíðlega athöfn. SEM samtökin voru í þeim hópi og kom í okkar hlut 1.000.000 kr. Styrkurinn mun verða notaður næstkomandi sumar í hjólastólanámskeið, sem verður með áþekku sniði og námskeið sem var haldið við góðan orðstír í Þorlákshöfn síðastliðið sumar.

Styrkur eins og þessi er SEM ómetanlegur til að geti sinnt brýnum verkefnum fyrir félagsmenn.

SEM þakkar Sorpu kærlega fyrir góðvild í okkar garð og óskar starfsfólki fyrirtækisins gleðilegra jóla.

 

Hið árlega happdrætti til styrktar SEM samtökunum er hafið og verð sölumenn á okkar vegum í öllum betri búðum. Miðaverð er það sama og undanfarin ár, 2.000 kr. Dregið verður 22. febrúar 2020.

Eins og ávallt eru glæsilegir skattfrjálsir vinningar í boði. Fyrsti vinningur er gullfalleg Kia Stonic X, sjálfskiptur, að verðmæti 3.640.777 kr. Heildarverðmæti allra vinninga er 34.341.347 kr.

Auk þess eru 412 vinningar í pottinum:

2.- 22. 21 x Fartölvur frá Tölvulistanum. Hver að verðmæti 100.000 kr.

23.- 347. 325 x Ferðavinningar frá Heimsferðum. Hver að verðmæti 80.000 kr.

348.- 367. 20 x Gjafabréf frá Tölvulistanum. Hver að verðmæti 50.000 kr.

368.- 413. 46 x JBL Extreme 2 Bluetooth hátalarar frá Tölvulistanum. Hver að verðmæti 34.795 kr.

Með kaupum á happdrættismiða SEM ertu að styrkja starfsemi félagsins, sem felst meðal annars í að veita einstaklingum sem hafa hlotið mænuskaða margs konar fræðslu, aðstoða við íbúðamál, íþróttastyrki o.s.frv. Hægt að greiða heimsenda miða með meðfylgjandi gíróseðli. Athylgli er vakin á að ekki er lengur hægt að greiða gíróseðla í heimabanka Íslandsbanka.

 

Í gær, miðvikudaginn 20. nóvember, tók Arnar Helgi Lárusson formaður SEM samtakanna við ómetanlegri gjöf að upphæð 4.050.000 frá stúkum innan Oddfellow í tilefni 200 ára afmælis reglunnar. Stúkurnar sem lögðu gjöfina til eru: Hallveig, Þorkell máni, Þorfinnur karlsefni, Sigríður, Þorgerður og Þorbjörg.

SEM samtökin þakkar öllu því góðhjarta fólki sem starfar innan þessara stúkna kærlega stuðninginn.

Gjöfin gerir SEM kleift að standa undir nauðsynlegu viðhaldi á íbúðum á Sléttuvegi 3, sem í flestum tilfellum eru í slæmu ástandi vegna aldurs og ágangs.

Á meðfylgjandi mynd tekur Arnar Helgi við gjöfinni úr hendi tveggja fulltrúa Oddfellow.

Fróðleiksfúsum er bent á heimasíðu Oddfellow, en þar má til dæmis fræðast um hvað Oddfellow stendur fyrir, regludeildir og söguágrip. Auk þess má fræðast um fjölmörg mannúðarmál sem Oddfellow hefur beitt sér fyrir á síðustu áratugum.

Sjá: https://www.oddfellow.is/is

73321459 1416982538467457 7927271324920053760 o

Í gær, föstudaginn 1. nóvember var þriðja endurbyggða íbúðin í SEM húsinu, Sléttuvegi 3, afhent ánægðum leigjanda. Framkvæmdir hófust af fullum krafti í byrjun september og stóðust allar tímaáætlanir. Íbúðin var í mjög slæmu ástandi líkt og margar aðrar í húsinu eftir 30 ára notkun og lítið viðhald, vegna skorts á fjármagni.

Íbúðin var tekin í gegn með sambærilegum hætti og áður. Í því felst að skipt var um allt innandyra eins og til dæmis: gólfefni, innréttingar, eldhústæki og rennihurðar settar í veggi. Einnig var veggur brotinn niður og skipan eldhúss breytt til að búa til opið rými, sem hentar fólki í hjólastólum betur. Íbúðin er nú eins og ný og stenst allar nútíma kröfur um aðgengi og útlit.

Eins og áður hefur komið fram fengu SEM samtökin í vor veglegan 7.000.000 styrk frá Rebekkustúku nr. 1, Bergþóru I.O.O.F., Kertasjóði Soffíu J. Claessen og Systra og sjúkrasjóði. Enn og aftur þökkum við félagsmönnum þessara samtaka kærlega fyrir stuðninginn, en án hans hefðu breytingar á íbúðinni ekki farið fram.

Auk þess þökkum við öllum vertökum sem komu að verkefninu kærlega fyrir góða samvinnu og vönduð vinnubrögð.

 

Laugardaginn 19. okt. verður haldinn Paralympic kynningardagur á íþróttum fatlaðra á Íslandi. Kynningin fer fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal, á milli 13:00-16:00. Gengið er inn um aðalinngang að framanverðu.

Gestum gefst þar færi á að kynna sér starfsemi aðildarfélaga Íþróttasambands fatlaðra og sjá hvaða íþróttir standa fötluðum til boða á Íslandi.

Sjá meðfylgjandi auglýsingu:

https://www.ifsport.is/read/2019-10-16/hefur-thu-profad-ithrottir-fatladra/

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram s.l. laugardag og áttu SEM samtökin 21 fulltrúa og einn hóp í hlaupinu, sem allir stóðu sig með stakri prýði.

Í aðdraganda hlaupsins buðu samtökin þessum einstaklingum í léttan kvöldverð í þakklætisskyni, sem jafnframt var notaður til að þétta hópnum saman fyrir komandi átök. Við sama tækifæri fengu allir afhenta boli merkta samtökunum, sem flestir völdu að hlaupa í eða klæðast eftir hlaup.

Þegar lokað var fyrir áheit kom í ljós að alls höfðu safnaðst 599.000 kr. SEM samtökin þakka enn og aftur öllum þeim sem tóku þátt og þeim sem styrktu hlauparana kærlega fyrir veittan stuðning, sem er okkur ómetanlegur.

Nú er sumri farið að halla og vetrardagskrá að taka við. Þriðjudaginn 27. ágúst verður fyrsta jafningjafræðsla komandi vetrar fyrir nýslasaða og aðra á Grensás. Fulltrúar SEM samtakanna verða á staðnum alla þriðjudaga í vetur á milli 15:00-17:00.
Allir velkomnir

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323