SEM logo

SEM logo

SEM logo

þroskuldur

Stefndu, Reykjanesbær og Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf, eru sýknuð af kröfum stefnda, Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra og Arnars Helga Lárussonar. Málskostnaður fellur niður.

Nú þegar dómur í Héraðsdómi Reykjaness hefur verið kveðinn upp í aðgengismáli gegn Reykjanesbæ og Fasteign þar sem SEM samtökin og ég, Arnar Helgi Lárusson voru stefnendur er vert að spyrja sig hvað er að í þessu samfélagi?

Vonandi mun þetta aðgengisvandamál breytast, en vonin er samt ekki meiri en sú von um að ég muni ganga á ný án hjálpartækja, eða er það von eða fjarlægur draumur? Er það kannski bara draumur að við sem erum hreyfihömluð fáum það sama frá samfélaginu og aðrir, ekkert meira heldur bara það sama? Nú halda sjálfsagt margir að ég sé eitthvað að fara framúr mér og eigi nú bara að vera þakklátur fyrir allar þær lyftur sem hafa verið settar upp fyrir okkur og allar þær skábrautir og allt það sem hefur verið gert til þess að bæta aðgengi sem hefur kostað samfélagið stór fé. Þó svo að stór hluti þeirra lyfta, skábrauta og þröskulda sé ekki nothæft fyrir hreyfihamlaða nema með aðstoð. Ég á nú aldeilis að vera þakklátur fyrir það að fá að fara inn um sama inngang og aðrir og fá að fara í lyftu til þess að hitta kennara barna minna, en ég á ekkert að þurfa að vera þakklátur fyrir það, þetta á bara að vera sjálfsagður hlutur. Það er ekki krafa okkar sem erum hreyfihömluð að allt sé á pöllum, stöllum og hæðum, það er eitthvað sem arkitektar og eigendur fasteigna velja og þá verða þeir náttúrulega að taka og bera þá ábyrgð um að allt sé aðgengilegt. Alveg frá árinu 1979 hefur það verið alveg skýrt í lögum þessa lands að við byggingu og breytingu fasteigna að það beri að fara eftir byggingarreglugerðum, það hefur hinsvegar ekki verið gert í yfir 90% bygginga síðan þá og þar sem það hefur verið gert hefur það verið gert með algjörlegum ásetningi, því það byggir enginn óvart aðgengilegt húsnæði, það þarf að leggja sig fram við það.

Í dómnum kemur fram að umrædd hús séu byggð fyrir tíma byggingareglugerðarinnar sem er vissulega rétt, annað er byggt sem síldartunnugeymsla og hitt sem vélsmiðja. En nú á seinnipart 20. aldar og byrjun 21. aldar hefur hinsvegar verið ákveðið að breyta þessu í menningarstöðvar; safn og félagsmiðstöð. Við það hafi komið upp kröfur um eldvarnir, salernis- og hreinlætisaðstöður, burðavirki og aðgengi, ef taka skal mark á þessum dóm þá er það einfaldlega huglægt mat hverju skal framfylgja og hverju ekki. Hvernig eigum við þá að geta treyst því að þessi gömlu hús sem fengið hafa nýjan tilgang séu örugg? Þó að erfitt eða kostnaðarsamt sé að koma fyrir neyðarútgangi, er ekki hægt að sleppa honum. Og það sama á að sjálfsögðu að eiga við lyftur og þess háttar.

Starfsfólk sveitafélaga sem á að fara með eftirlit með því að allt eigi að vera aðgengilegt fer yfirleitt í einhverskonar dómarasæti og fer að túlka hvar og hvenær skal fara eftir reglum í stað þess að taka bara upp mæliband og mæla til hvort hámarkshæðir þröskulda séu virtar eða athuga hvort það vanti lyftu milli hæða eða ekki og gefa raunhæfan frest til þess að gera úrbætur óháð fjárhag.

Starfsfólk Mannvirkjastofnunar sem á að hafa eftirlit með starfsfólki sveitafélaganna eru engu betra. Eftir að hafa reynt eftir fremsta megni að benda þeim á og hreinlega mata ofan í þau byggingarreglugerðarbrot í Reykjanesbæ í nokkrum málum tókst loks eftir hundruði símtala og tugi tölvupósta að kreista fram fjóra úrskurði um að Reykjanesbær hafi ekki farið eftir byggingarreglugerð, sem var aldrei neinn vafi af minni hálfu. En það sem er annað og verr er að MVS hefur ekki með neinum hætti ávítað RNB eða starfsmenn RNB á nokkurn hátt með t.d kröfum um úrbætur heldur aðeins viðurkennt vanrækslu umhverfis- og skipulagssvið RNB.

Það að þurfa að ganga svona á eftir almennum manréttindum mínum og hreyfihamlaðra getur tekið á, ég hef þurft að horfa framan í þó nokkra byggingarfulltrúa og aðra fulltrúa sveitafélaga, forstjóra og lögfræðinga MVS lofa úrbótum en ekkert gerist, og nú takast á við það að fara með mál fyrir dóm. En þetta er nú eflaust bara byrjunin því ég mun aldrei sætta mig við það að vera skilinn út undan á þennan hátt.

Það er eitt að vera mikið hreyfihamlaður og þurfa að takast á við lífið með öllum þeim aukaverkunum sem því fylgir, en það er annað og mun verr að finna fyrir samfélagslegri útilokun. Það að vera ùtilokaður frá eigin samfélagi sem maður hefur búið í alla ævi og tekið þátt í að byggja upp með þeim sköttum og skyldum sem því fylgir er ömurlegt og andlega skemmandi. Ég finn stöðugt fyrir því að fá ekki að taka þátt stórum stundum barna minna, en kaldhæðnin í því er að það er oftar en ekki aðeins þröskuldur eða örfáar tröppur sem skilja okkur á milli. Það að fara í menningarlegan leiðangur með fjölskyldu sinni í þeim tilgangi að skoða söfn og þessháttar er uppbyggilegt fyrir alla í fjölskyldunni, en þegar einn úr fjölskyldunni er skilinn út undan og látinn húka fyrir neðan tröppur eða fyrir aftan þröskulda er eins eyðileggjandi og það getur orðið fyrir alla í fjölskyldunni.

Þessari niðurstöðu verður aldrei unað.

Hér fyrir neðan má sjá úrskurði Mannvirkjastofnunar og dóm Héraðsdóms.

Arnar Helgi Lárusson

Úrskurður Mannvirkjastofnunar 2014 (pdf)

Úrskurður Mannvirkjastofnunar 2015 (pdf)

Dómur 2016 (pdf)

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323