Opnað hefur verið fyrir umsóknir félagsmanna um leigu orlofshússins yfir sumartíma 2017.
Hér fyrir neðan er hægt að sækja um eina viku með allt að sex valmöguleikum fyrir tímabil. Nánari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi pdf skjali.
Umsóknarfrestur er til miðvikudagsins 22. mars 2017 - Úthlutað verður þriðjudaginn 28. mars 2017 og tilkynnt með tölvupósti til viðkomandi.
Umsóknum er hægt að skila á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða koma með á skrifstofu SEM
Dagskrá
18:00 – 18:30 Kynning á orlofs íbúð SEM á Akureyri. Fyrirkomulag, leigukostnaður, forgangur félagsmanna og fl.
18:30 – 19:00 Pizza, kaldur og gos, Kaffi og eitt sætt á eftir.
19:00 – ??:?? Kynning á Hjólafærni á Íslandi (Hjólað óháð aldri)
Sesselja Traustadóttir.
19:?? - ??:?? Spjall
Með kærri kveðju
Stjórn SEM
Okkur er sönn ánægja að kynna orlofsíbúð SEM samtakanna á Akureyri. Íbúðin er til útleigu fyrir félagsmenn og almenning allt árið um kring. Félagsmenn fá forgang yfir sumarið og verður ferlið auglýst á næstunni.
Nokkur ár eru liðin frá því að ákveðið var að selja sumarbústað samtakanna vegna íþyngjandi viðhalds og auk þess sem hann var ekki nógu hentugur fyrir fólk í fyrirferðarmiklum hjólastólum og óaðgengilegur í snjó.
Margir félagsmenn hafa beðið spenntir eftir nýju orlofshúsi og við vonumst til að sem flestir nýti sér það.
Um er að ræða glæsilega og rúmgóða íbúð með fjórum svefnherbergjum í nýrri byggingu þar sem allt að 9 manns geta gist. Íbúðin er útbúin með aðgengi í huga fyrir hjólastólanotendur. Má nefna að hún er aðgengileg með hurðaopnara og lyftari er á staðnum.
Aðrar upplýsingar um íbúðina má nálgast á www.orlof.sem.is
Stefndu, Reykjanesbær og Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf, eru sýknuð af kröfum stefnda, Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra og Arnars Helga Lárussonar. Málskostnaður fellur niður.
Nú þegar dómur í Héraðsdómi Reykjaness hefur verið kveðinn upp í aðgengismáli gegn Reykjanesbæ og Fasteign þar sem SEM samtökin og ég, Arnar Helgi Lárusson voru stefnendur er vert að spyrja sig hvað er að í þessu samfélagi?
Vonandi mun þetta aðgengisvandamál breytast, en vonin er samt ekki meiri en sú von um að ég muni ganga á ný án hjálpartækja, eða er það von eða fjarlægur draumur? Er það kannski bara draumur að við sem erum hreyfihömluð fáum það sama frá samfélaginu og aðrir, ekkert meira heldur bara það sama? Nú halda sjálfsagt margir að ég sé eitthvað að fara framúr mér og eigi nú bara að vera þakklátur fyrir allar þær lyftur sem hafa verið settar upp fyrir okkur og allar þær skábrautir og allt það sem hefur verið gert til þess að bæta aðgengi sem hefur kostað samfélagið stór fé. Þó svo að stór hluti þeirra lyfta, skábrauta og þröskulda sé ekki nothæft fyrir hreyfihamlaða nema með aðstoð. Ég á nú aldeilis að vera þakklátur fyrir það að fá að fara inn um sama inngang og aðrir og fá að fara í lyftu til þess að hitta kennara barna minna, en ég á ekkert að þurfa að vera þakklátur fyrir það, þetta á bara að vera sjálfsagður hlutur. Það er ekki krafa okkar sem erum hreyfihömluð að allt sé á pöllum, stöllum og hæðum, það er eitthvað sem arkitektar og eigendur fasteigna velja og þá verða þeir náttúrulega að taka og bera þá ábyrgð um að allt sé aðgengilegt. Alveg frá árinu 1979 hefur það verið alveg skýrt í lögum þessa lands að við byggingu og breytingu fasteigna að það beri að fara eftir byggingarreglugerðum, það hefur hinsvegar ekki verið gert í yfir 90% bygginga síðan þá og þar sem það hefur verið gert hefur það verið gert með algjörlegum ásetningi, því það byggir enginn óvart aðgengilegt húsnæði, það þarf að leggja sig fram við það.
Kæru SEMarar, standsettning orlofsíbúðar SEM samtakana á Akureyri er nánast lokið.
Íbúðin að Kjarnagötu 41 verður að öllum líkindum klár til útleigu strax eftir áramót fyrir félagsmenn SEM, félagsmenn geta pantað tímabil á netinu (fyrstur pantar fyrstur fær). Á heimasíðu sem.is verður fljótlega settur hnappur með heitinu orlofsvefur SEM. Sumarleiga og páskar verða með úthlutunar fyrirkomulagi og á svipaðan hátt og Litli Skyggnir var með, verður tilkynnt félagsmönnum með pósti. Sumartímabil fyrir árið 2017 er frá 26.maí – 25.ágúst.
Íbúðin er mjög vel útbúin með svefnplási fyrir 9 manns, í íbúðinni er ferðalyftari sem hægt er að rúlla á milli herbergja (Fólk verður að koma með seglið sitt með sér), Wc/sturtustóll er einnig til taks. Þvottavél og þurkari eru inn á baði,Innréttingar eru hjólastólafærar hvað varðar að elda, vaska upp og snyrta sig.
Íbúðin verður leigð út með þrifum.
Kveðja, stjórn SEM
SEM samtökin þakka Samkaupum hf. kærlega fyrir stuðninginn við standsetningu á orlofsíbúð samtakanna á Akureyri. Samkaup studdi samtökin rausnarlegar með kaupum á tækjum og tólum í íbúðina. Orlofsíbúð SEM er sérútbúin þannig að fólk sem notast við hjólastól eigi auðvelt með að athafna sig.
Síðastliðinn föstudag söfnuðu viðskiptavinir Olís einni og hálfri milljón króna fyrir SEM í átaki Olís GEFUM & GLEÐJUM. Hér sjáum við Jón Ólaf Halldórsson forstjóra Olís afhenda Arnari Helga Lárussyni formanni SEM afraksturinn. Við erum í skýjunum yfir viðbrögðum ykkar og þökkum ykkur og Olís innilega fyrir.
Olíuverzlun Íslands leggur góðum málefnum lið næstu vikurnar með verkefninu Gefum & gleðjum. Næstu þrjá föstudaga munu 5 krónur af hverjum seldum eldsneytislítra hjá Olís og ÓB renna til Stígamóta, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra. Á milli jóla- og nýárs mun síðan Slysavarnarfélagið Landsbjörg njóta góðs af verkefninu með sama hætti og í fyrra.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Olís. Þar er vitnað í Sigríði Hrefnu Hrafnkelsdóttur, framkvæmdastjóra smásölusviðs hjá Olís sem segir fyrirtækið telja það sína samfélagslegu skyldu að leggja góðum málefnum lið.
„Olís hefur undanfarin ár styrkt með myndarlegum hætti fjölmörg verkefni sem áhrif hafa haft á samfélagið okkar hvort heldur sem um ræðir félagasamtök eða íþróttafélög og því viljum við halda áfram. Með því að dæla eldsneyti næstu föstudaga á Olís eða ÓB stöðvum geta landsmenn allir lagt sitt af mörkum til að styðja við þessi félög. Við viljum með þessu verkefni sýna að fyrirtæki geta lagt sitt af mörkum og hvetjum við önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama," er haft eftir Sigríði.
Þetta er annað árið í röð sem Olís leggur góðum málefnum lið með verkefninu Gefum & gleðjum en á síðasta ári nutu Styrktarfélag barna með einhverfu, Mæðrastyrksnefnd, Neistinn, Styrktarfélag hjartveikra barna, Geðhjálp og Slysavarnarfélagið Landsbjörg góðs af verkefninu en þá söfnuðust yfir 10 milljónir króna fyrir félögin.
Aðalfundur SEM og H-SEM verður haldinn miðvikudaginn 27. apríl 2016 kl 19:00 í salnum í SEM húsinu að Sléttuvegi 3.
Dagskrá fundarins verður samkvæmt samþykktum félagsins.
a) Skýrsla stjórnar SEM um störf félagsins á liðnu starfsári.
b) Skýrsla stjórnar H-SEM.
c) Skýrslur annarra nefnda eða fulltrúa félagsins.
d) Endurskoðaðir reikningar félagsins.
e) Reikningar H-SEM lagðir fram til kynningar.
f) Árgjald félagsins ákveðið.
g) Lagabreytingar.
h) Kosning stjórnarmanna fyrir þá sem lokið hafa setu í stjórn.
i) Kosning fulltrúa í H-SEM fyrir þá sem lokið hafa kjörtímabili.
j) Kosning fulltrúa í aðastjórn ÖBÍ og 2 varamenn.
k) Kosning í fulltrúaráð ÖBÍ: 2 fulltrúar og 2 til vara.
l) Kosning endurskoðenda.
m) Kosning í orlofshúsanefnd.
n) Kosning fjáröflunarnefndar.
o) Kosning ritnefndar.
p) Kosning annara nefnda.
q) Önnur mál.
r) Starfstilhögun nýkjörinnar stjórnar.
Í ár á samkvæmt samþykktum SEM og HSEM að kjósa:
Við hvetjum alla nýja og eldri félagsmenn til þess að bjóða sig fram í stjórnir og nefndir, til að koma inn með ferskar og nýjar hugmyndir og halda áfram að bæta félagið.
Bestu kveðjur,
Stjórnin
SEM hefur undanfarin ár fengið styrki frá hjólreiðafélaginu Hjólamenn. Félagið er eins og nafnið gefur til kynna félag fólks sem hefur áhuga á hjólreiðum. Félagið Hjólamenn heldur árlega viðburð sem kallast Jökulmílan þar sem hjólað er í einn hring meðfram strandlengju Snæfellsness og er þessi styrkur hluti af skráningargjaldi viðburðarins.
Styrkurinn frá þeim þetta árið (2015) hljóðar upp á 75.500 kr og er ætlaður til þess að styrkja félagsmenn SEM við hjólaiðkun.
Stjórn SEM samtakanna óskar eftir umsóknum um styrki og mun ákveða hvernig fjármagninu verður varið út frá þeim umsóknum sem berast. Umsóknir þurfa að hafa borist fyrir 1. apríl 2016.
Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í happdrættinu innilega fyrir stuðninginn
Ágætu SEMarar, SEM samtökin hafa fest kaup á nýrri orlofsíbúð á Akureyri sem er í byggingu núna og verður að öllum líkindum afhent í júní 2016. Í framhaldi af sölu Litla Skyggnis í Úthlíð í febrúar/mars árið 2015 var farin sú leið að skoða eignir norður á Akureyri með samþykki aðalfundar SEM 2015. Hluti af stjórn SEM fór norður í okt/nóv 2015 að skoða nokkrar eignir og á endanum var tekin ákvörðun að festa kaup á Kjarnagötu 41 íbúð 202. Íbúð þessi er 102 fm. og með 4 herbergjum. Verðmiðinn á þessari eign er um 28,4 millj. króna plús/mínus kostnaður vegna breytinga. Íbúð þessi er á annari hæð í sameign með 8 öðrum íbúðum. Aðgengi og viðvera okkar á að vera með besta móti þar sem við komumst inn í kaup á íbúð fljótlega eftir að eign varð fokheld. Stjórn SEM vonar að allt verði klárt til útleigu til félagsmanna um mitt sumar 2016, en það verður auglýst um leið og við verðum klár.
Sjá myndir sem teknar voru 27. janúar 2016.
Nánari upplýsingar er hægt að finna hér á vef byggingaverktakans
Stjórn SEM