SEM logo

SEM logo

SEM logo

stjorn19

14559984-312055205841381-2136446344744190331-o

Kæru félagsmenn og aðrir velunnarar SEM

Viljum vekja athygli ykkar á að enn eru fjórar vikur lausar í orlofshúsinu okkar að Kjarnagötu 41 Akureyri. https://www.orlof.sem.is/
28.maí – 4. júní
4. júní – 11. júní
18. júní – 25. júní
20. ágúst – 27. ágúst

Bendum á að þrif eru innifalin í verði.
Félagsmenn SEM 35.000 kr. vikan
Aukafélagsmenn SEM 45.000 kr. vikan
Almennt verð 55.000 kr. vikan

Vinsamlegast hafið samband við:
Jóhann Rúnar Kristjánsson This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Egill St. Fjeldsted This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

stjorn18-r

Aðalfundur SEM samtakanna var haldinn fimmtudaginn 26. apríl s.l.. Bauð formaður félagsins, Arnar Helgi Lárusson, alla velkomna.
Að því búnu las hann upp skýrslu stjórnar SEM. Kom þar m.a. fram að Grensás verkefnið (jafningjafræðsla) gengi vonum framar og fengi sífellt meira lof, jafn hjá þeim sem nýttu þjónustuna og fagfólks á Grensás. Einnig kom fram að styrkir til SEM hefðu bæði verið fleiri og hærri en undanfarin ár sem væri í samræmi við þátttöku félagsmanna í réttinda- og hagsmunamálum. Enn fremur sagði Arnar frá framkvæmdum á sal, sem hefðu verið mun umfangsmeiri og dýrari en gert var ráð fyrir við upphaf framkvæmda. Þrátt fyrir erfiðleikana mættu allir vera stoltir af útkomunni. Að lokum greindi hann frá að happdrættið hefði gengi vel og nánast allar vikur í orlofshúsinu á Akureyri væru bókaðar.

Næstur á mælendaskrá var Árni Geir Árnason sem flutti skýrslu stjórnar H-SEM. Í máli hans kom m.a. fram að ekki hefði gengið að fá starfsmenn á vegum Fangelsismálastofnunar til aðstoðar við tilfallandi verkefni í og við hús samtakanna. Sama ætti við um að fá góða iðnaðarmenn á samgjörnum launum til starfa vegna uppgangs í þjóðfélaginu. Einnig kom fram í máli hans að lokið hefði verið við ástandskönnun á íbúðum á Sléttuvegi 3. Leiddi sú könnum í ljós að ástand margra þeirra væri óviðunandi. Í því samhengi væri nú fallið frá áformum um að breyta íbúðunum að fyrirmynd MSD félagsins (íbúð 301) vegna kostnaðar á hverja íbúð. Þess í stað ætti að setja aukinn kraft í venjulegt viðhald. Að lokum nefndi Árni Geir að skrifstofa samtakanna muni fljótlega taka í notkun bókhaldskerfið DK, sem muni gjörbreyta öllu er varðar bókhald og skilum á ársreikningum.

Þegar skýrslur höfðu verið fluttar var kosið í hinar ýmsu stjórnir og nefndir og má þar helst nefna:
Stjórn SEM
Formaður; Arnar Helgi Lárusson
Ritari; Jóhann Rúnar Kristjánsson
Gjaldkeri; Agnar Ingi Traustason
Meðstjórnandi 1; Rúnar Björn Herrera Þorkelsson
Meðstjórnandi 2; Arna Sigríður Albertsdóttir
Meðstjórnandi 3; Egill St. Fjeldsted
Meðstjórnandi 4; Aðalbjörg Guðgeirsdóttir

Stjórn H-SEM
Meðstjórnandi 0; Arnar Helgi Lárusson (sjálfkjörinn sem formaður SEM)
Meðstjórnandi 1; Aðalbjörg Guðgeirsdóttir
Meðstjórnandi 2; Árni Geir Árnason
Meðstjórnandi 3; Rúnar Björn Herrera Þorkelsson
Meðstjórnandi 4; Egill St. Fjeldsted
Varastjórnandi 1; Jóna Marvinsdóttir
Varastjórnandi 2; Guðný Guðnadóttir
Varastjórnandi 3; Jóna Kristín Erlendsdóttir

Að loknum almennum umræðum var fundi slitið. Alls mættu 23 manns, tæplega ¼ félagsmanna, á fundinn og þarf að leita nokkur ár aftur í tímann til finna jafn góða mætingu.

Að fundi loknum hélt Stuðlaberg, áður Eirberg, afbragðs kynningu á hjólastólum, SmartDrive hjálparmótor og FreeWheel hjóli. Í máli Jóhönnu Ingólfsdóttur, iðjuþjálfa, kom fram að SmartDrive og FreeWheel væru nú í samningi hjá Sjúkratryggingum Ísl.

 Jóna Kristín Erlendsdóttir

Ef ég ætti að svara hvernig er best að koma fram við fólk með mænuskaða er stutta svarið nokkuð einfalt: bara alveg eins og við alla aðra. Auðvitað verða sumir vandræðalegir eða vita ekki alveg hvernig á að haga sér þegar þeir kynnast nýju og „öðruvísi" fólki, sem er hið eðlilegasta mál. Ég ákvað að telja upp nokkur atriði sem er gott að hafa í huga í samskiptum við fólk með mænuskaða/fólk í hjólastól.

1. „Hvað gerðist/af hverju ertu í hjólastól?" – Ég get ekki talið hversu oft ég hef fengið þessa spurningu. Að mínu mati er mjög eðlilegt að vera forvitinn, en mér finnst óþægilegt að svara þessu þegar fólk sem ég veit ekki einu sinni hvað heitir spyr mig. Það er algengt að fólk spyrji mig niðri í bæ á djamminu, enda margir búnir að fá sér nokkra (og nokkra í viðbót eftir það). Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá kom ég bara niður í bæ til að skemmta mér, ekki lýsa því hvað kom fyrir mig fyrir ókunnugu fólki. Fyrir mér er þetta dálítið eins og að segja við einhvern niðri í bæ: „Jæja, segðu mér nú frá einhverju af því versta sem hefur komið fyrir þig" Eru ekki annars allir til í að tala um svoleiðis á djamminu?

2. Persónulegt rými – Það gæti vel verið að þetta eigi ekki við nærri því alla sem nota hjólastól eða eru með mænuskaða. Mín upplifun er samt sú að mörgu fólki finnist bara allt í lagi að setjast á mig eða taka í stólinn minn. Þá er ég að tala um ókunnugt fólk auðvitað. Vinsamlegast ekki setjast á fólk nema þú fáir leyfi hjá því, hvort sem það er í hjólastól eða ekki. Þó að sumt fólk í hjólastól þurfi hjálp við eitthvað, þurfum við samt okkar persónulega rými og finnst ekkert endilega þægilegra en öðrum að fólk sé að snerta okkur eða stólinn okkar. Það er líka mjög óþægilegt þegar einhver tekur í stólinn og dregur mig eða ýtir mér áfram án þess að biðja um leyfi. Ég veit að oft vill fólk bara hjálpa en þú veist í rauninni ekki hvað manneskjan getur nema þú þekkir hana, það er ótrúlega misjafnt hvað fólk í hjólastól getur gert (sumir komast meira að segja upp stiga í hjólastól, takk fyrir kærlega!) Þess vegna gæti vel verið að manneskjan þurfi ekki hjálp. Ef mig bráðvantar hjálp þá bið ég bara um hjálp, auk þess sem ég er yfirleitt með fólki sem kann að hjálpa mér. Hvernig myndir þú bregðast við ef þú værir að fara að labba yfir götu eða upp stiga og einhver ókunnugur myndi taka í höndina á þér og draga þig áfram? Ég held að tilfinningin sé frekar svipuð og þegar fólk tekur óvænt í stólinn.

3. „Hvað langar hana/hann í?" – Ég hef reyndar ekki lent í þessu sjálf og ég held að þetta sé ekki eins algengt í dag og það var. Þetta hefur þó komið upp í umræðum hjá mænusködduðum. Málið er semsagt að sumir, t.d. starfsmenn á veitingahúsi, spyrja þann sem er með manneskjunni í hjólastólnum hvað hún vilji, t.d. ef ég væri á veitingahúsi og þjónninn myndi spyrja vin minn hvað mig langaði í, í stað þess að spyrja mig. Ég held að þetta sé aðallega einhver feimni eða að fólk heldur að við séum ekki fær um að tala fyrir okkur sjálf. Ég er ekki viss, ef einhver hefur hugmynd um það myndi ég gjarnan vilja vita hvað málið er.

4. „Má ég PLÍS hjálpa þér?" – þetta getur verið óþægilegt. Ég veit að fólk vill hjálpa (og nei, það segir enginn „má ég PLÍS hjálpa þér?") en mér líður stundum eins og það sé ekki hægt að segja bara: „nei, takk!" Sumir halda áfram að spyrja: „ertu viss? Viltu ekki fara niður þennan stiga/viltu ekki fara inn um þessa hurð?/á ég ekki að lyfta þér upp/á ég ekki að HJÁLPA þér?" Ef ég segi nei, þá þýðir það bara nei. Ég er ekki að segja það til að vera hógvær eða kurteis, ég meina bara: „takk kærlega fyrir að bjóðast til að hjálpa mér, en ég vil ekki hjálp". Stundum vil ég líka bara hjálp frá vinum mínum eða fjölskyldu, ekki ókunnugu fólki (sjá lið 2). Ég treysti ekkert endilega einhverju blindfullu fólki niðri í bæ til að hjálpa mér upp og niður stiga. Fólk þarf ekki að hjálpa mér til að hafa gert eitthvað gott, það er meira en nóg að hafa boðist til að hjálpa.

5. „Þú ert hetja" – Ég veit ekki alveg hvernig öðrum líður þegar þeir heyra þetta en mér líður skringilega þegar ég heyri þetta. Mér finnst ég bara ekki eiga skilið svona stórt hrós. Jú, kannski ef ég myndi bjarga einhverjum úr brennandi byggingu. Mér finnst skiljanlegt að fólk sem þykir vænt um mig segi svona, enda þekkir það mig og mína sögu og veit hvernig það var fyrir mig að lamast. En þegar ókunnugt fólk segir þetta...ég veit ekki. Ég gæti alveg verið manneskja sem hatar hvolpa og skrifar dónaleg ummæli á DV, þó ég sé í hjólastól. Það að ég hafi átt erfitt gerir mig ekki að engli eða frábærri manneskju eða hetju. Mér finnst fólk vera að horfa á stólinn þegar það segir svona, ekki mig, því það veit ekki hvernig manneskja ég er.

6. „þú ert svo dugleg að vera bara úti á meðal fólks!" – Er það samt? er það ekki bara eðlilegt að vilja vera í kringum fólk svona endrum og sinnum? Sumir (ókunnugir) hafa sagt við mig að þeir hefðu ekki þorað að mæta (hvar sem samtalið átti sér stað) ef þeir væru í hjólastól. Ég efast um að þeir hafi meint að það sé asnalegt að vera í hjólastól, svo mitt gisk er að fólk haldi að það sé erfitt að vera í kringum fólk af því að maður er öðruvísi, fólk tekur meira eftir manni og sumir horfa kannski meira á mann. En það venst! Hluti af endurhæfingunni felst í því að fara út á meðal fólks. Ef ég hefði verið lokuð inn á Grensás í hálft ár og aldrei farið út væri ég örugglega skíthrædd við að fara í Kringluna eða í skólann. En maður tekur bara eitt „rúll" í einu og venst því smám saman að stóllinn sé hluti af lífi manns.

Svona í lokin vil ég taka það fram að fólk er langoftast mjög almennilegt og ekkert skrítið í kringum mig (ekki svo ég hafi tekið eftir allavega). Það sést vel hvað fólk getur verið frábært þegar maður þarf hjálp eða líður illa. Ég veit líka að fólk meinar vel og þessi pistill er ekki gerður til að skamma neinn. Þvert á móti vona ég að hann hjálpi fólki að sjá að það þarf ekkert að stressa sig í kringum fólk sem er með mænuskaða eða í hjólastól, við erum bara venjulegt fólk eins og allir aðrir!

Ég vil benda á að allir eru mismunandi og skoðanir sem koma fram í þessum pistli eru mínar eigin og endurspegla ekki endilega hvernig öðrum líður þegar kemur að þessum málum.

Höfundur: Jóna Kristín Erlendsdóttir

arnahjol

Á síðustu árum og áratugum hafa allmargir félagsmenn SEM samtakanna stundað íþróttir af kappi með góðum árangri. Einn þessara íþróttamanna er Arna Sigríður Albertsdóttir, frá Ísafirði. Um þessar mundir er hún að stefna á þátttöku á Ólympíuleikum fatlaðra sem fram fara í Tokyo sumarið 2020.

Viðtal við Örnu Sigríði um undirbúninginn

runarb

Rúnar Björn Herrera er virk­ur í ýms­um sam­tök­um fatlaðs fólks og pólitík ásamt því að ferðast mikið. Hann lík­ir því við end­ur­fæðingu að lenda í slysi sem þessu og það taki langan tíma að ná jafn­vægi á ný.

Landsmenn hafa fylgst með máli Sunnu Elviru , sem lamaðist eftir fall á Spáni í janúar. Færri vita hins vegar að Rúnar er bróðir hennar og er einnig lamaður, en hann féll úr ljósastaur fyrir 15 árum.

Hann held­ur úti face­booksíðunni Ævin­týri Rún­ars  þar sem hann held­ur utan um ævin­týri sín.

Hér má sjá hluta viðtals við Rúnar sem birtist á mbl.

ArnarogSvandis.

Þann 14. mars s.l. hlutu SEM samtökin styrk frá Velferðarráðuneytinu að upphæð 1.071.00 kr. Alls hlutu 28 önnur félagasamtök styrki við sama tækifæri. Styrkirnir eru veittir til verkefna sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum, stuðning, fræðslu og ráðgjöf.

Arnar Helgi Lárusson, formaður SEM samtakanna, veitti styrknum móttöku úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Við það tækifæri ræddi Svandís um hve mikilvæg félagasamtök eins og SEM samtökin og önnur sem hlutu styrk væru fyrir samfélagið og hve rík ástæða væri til að styðja við starfsemi þeirra. Að lokum sagði Svandís:

„Við eigum að muna eftir þessu á hverjum degi og hafa hugfast að öll sú vinna sem fram fer innan vébanda þessara félaga er ekki sjálfsögð og hana ber að meta að verðleikum".

orlofshúsOpnað hefur verið fyrir umsóknir félagsmanna um leigu orlofshússins yfir sumartíma 2018.

Hér fyrir neðan er hægt að sækja um eina viku með allt að sex valmöguleikum fyrir tímabil. Nánari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi pdf skjali.
Umsóknarfrestur er til mánudagsins 26. mars 2018 - Úthlutað verður fimmtudaginn 29. mars 2018 og tilkynnt með tölvupósti til viðkomandi.

Umsóknum er hægt að skila á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða koma með á skrifstofu SEM

smellið hér til að nálgast eyðublað

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323