Samþykktir

1 gr. – Heiti félagsins, heimili og varnarþing

Félagið heitir Samtök Endurhæfðra Mænuskaddaðra (SEM). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík, starfssvæði er landið allt.

2gr. – Tilgangur og markmið

Markmið félagsins eru að efla samhjálp mænuskaddaðra, vinna að auknum réttindum þeirra og bættri aðstöðu í þjóðfélaginu, svo sem með því að:

  1. Styðja félagsmenn sína til að afla sér menntunar, bóklegrar eða verklegrar.
  2. Aðstoða félagsmenn við að leita sér starfa við hæfi.
  3. Efla félagsleg kynni og samheldni félagsmanna.
  4. Vekja athygli sveitarstjórna, ríkisvaldsins, opinberra aðila og almennings á því er betur má fara í húsnæðismálum, atvinnumálum, starfsþjálfun, ferlimálum og öðrum aðbúnaði og réttindamálum félagsmanna.
  5. Vinna að og efla forvarnarstarf.
  6. Aðstoða félagsmenn til þess að lifa sjálfstæðu lífi eftir bestu getu.

3. gr. – Félagsaðild

Félagsmaður getur sá orðið sem hlotið hefur varanlegan mænuskaða.

Verði ágreiningur um aðild að félaginu, hvort heldur sem er að stjórn hefur synjað um aðild eða samþykkt aðild sem félagsmanni finnst ólögmæt, skal boða til félagsfundar innan fjögurra vikna og þess getið í fundarboði. Á félagsfundinum skal kosið um málið og er niðurstaðan bindandi.

Félagsmenn skulu greiða félagsgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi ár hvert. Þó er stjórn félagsins heimilt að fella niður skyldur einstakra félagsmanna til greiðslu árgjalds eitt ár í senn ef fjárhagsaðstæður viðkomandi krefjast þess. Ævifélagi getur hver sá orðið sem greiðir tvítugfalt félagsgjald í eitt skipti fyrir öll.

Aukafélagi getur hver sá orðið sem vill vinna að markmiðum félagsins. Aukafélagi hefur eingöngu málfrelsi og tillögurétt. Aukafélagi er kjörgengur í nefndir og ráð félagsins en ekki í aðalstjórn eða á þing sem félagið sendir fulltrúa á. Aukafélagi greiðir félagsgjöld eins og aðrir félagsmenn.

Félagsmanni eða aukafélaga má víkja úr félaginu með samþykki félagsfundar, ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir inngöngu í félagið, eða hann verður sannur að sök um að hafa unnið gegn hagsmunum félagsins eða markmiðum þess. Máli sínu getur félagsmaður eða aukafélagi þó ávallt skotið til næsta félagsfundar sem fellir fullnaðarúrskurð.

4. gr. – Aðildarfélög

Félagið getur orðið aðili að öllum þeim heildarsamtökum sem vinna að framgangi baráttu- og hagsmunamálum félagsins á einn eða annan hátt, enda sé slík aðild samþykkt á almennum félagsfundi. Í fundarboði skal koma fram dagskrá slíks fundar. Á sama hátt getur félagið orðið félagi að stofnunum, fyrirtækjum eða félagsskap sem vinnur að einstökum hagsmunarmálum mænuskaddaðra.

5. gr. – Almennir félagsfundir

Til almennra félagsfunda skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Félagsfundi skal halda ef stjórn félagsins telur ástæðu til. Einnig geta félagsmenn óskað eftir slíkum fundi og skulu þær óskir sendar skriflega til stjórnar félagins.

Óski 10% félagsmanna eftir félagsfundi er stjórn félagsins skylt að verða við slíkri ósk. Skal stjórn senda út fundarboð með dagskrá fundarins innan 14 daga frá því að ósk um fund barst stjórninni.

Um rétt til fundarsetu, kosningarétt og atkvæðagreiðslur á félagsfundi gilda ákvæði 2. mgr. 7. gr. samþykkta þessara. Að auki getur stjórn félagsins ákveðið að heimila öðrum setu á félagsfundi af málefnalegum ástæðum.

6. gr. – Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fyrir aðalfund til samþykktar.

7. gr. – Aðalfundur

Stjórn félagsins skal boða til aðalfundar með minnst mánaðar fyrirvara. Aðalfundir skulu haldnir fyrir lok júní á hverju ári. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá fundarins og tillögur um breytingar á samþykktum félagsins ef einhverjar eru. Óski félagsmenn eftir að teknar verði til afgreiðslu breytingar á samþykktum félagsins skulu slíkar tillögur hafa borist skriflega til stjórnar eigi síðar en 1. apríl.

Rétt til fundarsetu hafa félagsmenn og aukafélagar. Eingöngu skuldlausir félagsmenn á árgjaldi starfsárs félagsins hafa kosningarétt og skulu þeir allir hafa jafnan atkvæðisrétt, aðrir hafa málfrelsi og tillögurétt. Við atkvæðagreiðslur ræður einfaldur meirihluti félagsmanna úrslitum mála. Falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skal kjósa stjórn SEM, stjórn H-SEM , fjáröflunarnefnd, ritnefnd og orlofshúsanefnd. Að tillögu stjórnar getur aðalfundur ákveðið hvaða fleiri fastanefndir skuli kosið í og kýs þá fundurinn þær. Fjáröflunarnefnd og ritnefnd heyra undir stjórn SEM og geta engar bindandi ákvarðanir tekið nema stjórn SEM eða félagsfundur hafi samþykkt þær.

Fastir liðir á dagskrá aðalfundar eru:

  1. Skýrsla stjórnar SEM um störf félagsins á liðnu starfsári.
  2. Skýrsla stjórnar H-SEM.
  3. Skýrslur annarra nefnda eða fulltrúa félagsins.
  4. Endurskoðaðir reikningar félagsins.
  5. Reikningar H-SEM lagðir fram til kynningar.
  6. Árgjald félagsins ákveðið.
  7. Lagabreytingar.
  8. Kosning stjórnarmanna fyrir þá sem lokið hafa setu í stjórn.
  9. Kosning fulltrúa í H-SEM fyrir þá sem lokið hafa kjörtímabili.
  10. Kosning fulltrúa í aðastjórn ÖBÍ og 2 varamenn.
  11. Kosning í fulltrúaráð ÖBÍ: 2 fulltrúar og 2 til vara.
  12. Kosning endurskoðenda.
  13. Kosning í orlofshúsanefnd.
  14. Kosning fjáröflunarnefndar.
  15. Kosning ritnefndar.
  16. Kosning annara nefnda.
  17. Önnur mál.
  18. Starfstilhögun nýkjörinnar stjórnar.

8. gr. – Stjórn félagsins

Stjórnina skipa formaður ritari, gjaldkeri og fjórir meðstjórnendur. Formaður er kosinn á hverjum aðalfundi, en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára, þannig að annað árið sé kosinn ritari og tveir meðstjórnendur en hitt árið gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Þar að auki skulu vera kosnir tveir varamenn í stjórn til eins árs.

Kjörgengir til stjórnar SEM eru félagsmenn með atkvæðisrétt.

9. gr. – Stjórn H-SEM

Stjórnina skipa fimm stjórnarmenn og þrír varamenn. Kjörtímabil er tvö ár. Annað árið skal kjósa tvo aðalmenn og tvo til vara en hitt árið þrjá aðalmenn og einn til vara. Stjórn H-SEM skiptir með sér verkum. Formaður SEM skal ávallt vera jafnframt varaformaður H-SEM. Stjórn H-SEM skal starfa eftir skipulagsskrá húsnæðisfélagsins. A.m.k. einn stjórnarmaður í H-SEM skal vera félagsmaður sem ekki býr í húsnæði í eigu H-SEM.

Kjörgengir til stjórnar H-SEM eru félagsmenn með atkvæðisrétt.

10. gr. – Hlutverk stjórnar

Stjórn félagsins fer með málefni félagsins á milli félagsfunda. Til þess að skuldbinda félagið þarf undirskrift tveggja stjórnarmanna þess. Til allra meiriháttar ákvarðana um rekstur eða starfsemi félagsins þarf þó samþykki félagsfundar. Stjórn félagsins er heimilt að ráða starfsmenn til fastra eða tímabundinna verkefna. Sé um fast starf eða starf sem útheimtir mikinn launakostnað skal það lagt fyrir félagsfund til samþykkis. Nefndum félagsins ber að leita samþykkis stjórnar SEM vegna hverskonar ráðningar eða ráðningarsamninga, hvort sem er vegna tímabundinna verkefna eða til langs tíma.

11. gr. – Lagabreytingar og slit félagsins

Til þess að breyta lögum þessum þarf að ræða og samþykkja breytingartillögurnar á tveimur fundum í röð og verður annar þeirra að vera aðalfundur. Breytingatillögurnar verður að auglýsa sérstaklega fyrir aðalfundinn. Til venjulegra lagabreytinga þarf einfaldan meirihluta atkvæða en til að slíta félaginu eða sameina það öðrum félagsskap þarf 2/3 hluta atkvæða á báðum fundum sem taka slíka tillögu til meðferðar.

Hafi verið samþykkt að slíta félaginu skulu eignir þess ef einhverjar eru afhentar til varðveislu Öryrkjabandalagi Íslands er skal annast þær þar til annað félag með sama starfsgrundvelli er stofnað. Við stofnun slíks félags er skylt að afhenda eignirnar til fullra afnota.

12. gr. – Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt í þessari mynd á aðalfundi 2014.