Fræðsla

Gray 111_-_Vertebral_column-colouredMænan er vel varin af rammgerðri hryggjarsúlunni en samt sem áður geta hryggjarliðir brotnað eða farið úr lið og valdið skaða á henni.

Staðsetning og alvarleiki áverka stýrir hvaða skerðing verður á líkamsstarfsemi því mænan er helsta tenging heilans við líkamann, mænuskaði getur því haft verulegar líkamlegar afleiðingar.

Högg sem þjappa eða pressa hálshryggjarliðina saman geta valdið óafturkræfum skaða á mænu í hálsi. Dæmi um það er þegar þak bíls þrýstist niður á höfuð við veltu, við fall af hestbaki, hjóli, húsþaki eða við það að hendast út um framrúðu bíls. Hálsmænuskaði kallast ferlömun því lömunin er í fjórum útlimum. Hryggjarliðir í hálsi eru sjö talsins (C1 til C7) og er hálsmænuskaði skilgreindur eftir heiti fyrsta liðs sem hefur nálægt fullri virkni.

Bílslys, fall á skíðum og önnur föll þar sem fólk lendir á sitjandanum eða baki valda oft skaða á brjósthrygg eða mjóbaki, sú lömun kallast þverlömun og skiptist í T (Thoracal) og L (Lumbar) skaða en T1 tekur við fyrir neðan C7 og svo L1 fyrir neðan T12.

Það skiptir miklu máli hvar skaði verður en hér koma nokkur dæmi.

  • C1-C3: Veldur oft dauða vegna þess að öndun dettur út. Hægt er að beyta raförfun á þind til að koma öndun af stað.
  • C4: Getur andað en með erfiðleikum. Getur lítið sem ekkert hreyft handleggi og herðar.
  • C5: Getur hreyft handleggi mjög takmarkað (beygt olnboga). Getur ekki hreyft fingur, úlnliði né rétt úr handleggjunum gegn þyngdarafli.
  • C6: Getur hreyft handleggi og rétt úr úlnliðum. Engin hreyfigeta í fingrum.
  • C7: Er með fulla hreyfigetu í handleggjum, getur hreyft fingur en oft með takmörkunum.
  • T1-T5: Er með fullt afl í höndum og hreyfigeta í brjóstvöðvum og fer vaxandi eftir því sem skaðinn er neðar.
  • T6 og neðar: Er líka með fullt handafl og afl í búk færist jafnt og þétt niður með lækkandi skaða.

img1

Flestir áverkar eru ekki þannig að mænan fari í sundur, heldur vegna þess að mænan kremst og merst þegar brotinn eða hreyfður hryggjaliður þrýstir á hana, þá skaðast taugafrumur sem bera skilaboð upp og niður mænu á milli heila og líkama. Taugaskaði getur verið allt frá því að vera óverulegur til þess að vera algjör. Dæmi um óverulegan skaða gæti verið einstaklingur sem hefur skerta tilfinningu fyrir neðan skaða og jafnvel hreyfigetu á meðan algör skaði hefur hvorugt. Fljótlega eftir áverka getur skaði gengið að hluta eða mestu til baka en oft er hann varanlegur.

Það var ekki fyrr en í kringum seinni heimstyrjöldina að mænuskaði var ekki lengur dauðadómur en fyrir þann tíma dóu flestir mænuskaddaðir vegna margskonar fylgikvilla eins og blóðtappa, öndunarerfiðleika eða blóðeitrunar út frá þvagfærasýkingum eða sýkingum í legusárum. Í dag er ýmsum aðferðum beitt til að reyna lágmarka skaða í byrjun og með skjótri sjúkraþjálfun er reynt að ná sem mestri getu til baka eins fljótt og hægt er.

Í dag eru engin viðurkennd úrræði til að lækna mænuskaða en framfarir eru örar og það er líklegra með hverjum deginum sem líður að mænuskaði þurfi ekki alltaf að vera eins varanlegur.