Aðalfundur SEM og H-SEM var haldinn 28. maí síðastliðinn. Í upphafi fundar bauð Arnar Helgi Lárusson formaður SEM alla velkomna. Að því búnu las hann upp skýrslu stjórnar SEM. Kom þar meðal annars fram að Jafningjafræðsla á Grensásdeild hefi gengið vel í vetur, þar til COVID-19 setti strik í reikninginn. Allmargir hafi nýtt sér hana og vel sé látið af henni jafnt hjá nýslösuðum, fjölskyldum þeirra, fagfólki og öðrum. Einnig kom fram að í júní í fyrra hefði SEM haldið hjólastólanámskeið í Þorlákshöfn. Stóð námskeiðið yfir í sex daga og heppnaðist einstaklega vel. Enn fremur kom fram í máli Arnars að SEM hefði skilað inn allmörgum kvörtunum til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar vegna brota byggingaraðila á hæð þröskulda í nýbyggingum. Í kjölfarið hafi hann hitt húsnæðismálaráðherra og farið yfir málið með honum. Í skoðun sé að fara í dómsmál með eitthvert þessara mála, svo þetta atriði verði í lagi í nánustu framtíð. Að lokum kom fram í máli hans að settur hafi verið saman samráðshópur til að endurskipuleggja og koma með drög að framtíðarstefnu SEM í húsnæðismálum.
Næstur á mælendaskrá var Árni Geir Árnason sem flutti skýrslu stjórnar H-SEM. Í meginatriðum kom fram í máli hans að lokið hafi verið við meiriháttar breytingar tveimur íbúðum á Sléttuvegi 3. Þar sem haft var að leiðarljósi nútíma kröfur um aðgengi. Að lokum kom fram í máli hans að hið árlega happdrætti hefði gengið vonum framar, sem auðveldi allan rekstur félagsins.
Þegar skýrslur höfðu verið fluttar var kosið í hinar ýmsu stjórnir og nefndir. Má þar helst nefna að Jóna Marvinsdóttir gekk úr stjórn H-SEM og í hennar stað kom Jóhann Rúnar Kristjánsson. Þökkum við Jónu kærlega fyrir vel unnin störf á liðnum árum.
Alls mættu 19 manns á fundinn, sem verður að teljast gott miða við ástandið í þjóðfélaginu vikurnar á undan.