Arna Sigríður Albertsdóttir ólst upp á Ísafirði þar sem hún stundaði íþróttir af kappi, þar á meðal skíði. Þegar hún var 16 ára lenti hún í alvarlegu slysi í skíðaæfingabúðum í Noregi.
„Ég var að hita upp þegar ég slasast og man svo sem ekki eftir slysinu. En ég hef misst jafnvægið, runnið af brautinni og endaði á tré”, segir hún. Hryggurinn brotnaði auk fjölda beina. Arna lá lengi á gjörgæsludeild, bæði í Noregi og á Íslandi.
Arna var aðeins 16 ára þegar hún lenti í slysinu og átti erfitt með að sætta sig við orðinn hlut. „Þetta er ótrúlega óraunverulegt. Ég hélt að það myndi ekkert koma fyrir mig. Fyrst og fremst bara afneitun svolítið lengi. Ég trúði ekkert að þetta væri að gerast. Vissi ekkert um mænuskaða eða þekkti ekkert til þess. Ég ætlaði bara að fara að ganga aftur, fara aftur á skíði og aftur í fóbolta. Maður heldur að maður sé ósigrandi þegar maður er 16 ára.”
Það tók hana langan tíma að átta sig á því að hún myndi ekki standa aftur í fæturna. „Það er ótrúlega erfitt, manni finnst maður vera að missa af svo miklu. Mér fannst ég vera að missa af jafnöldrum mínum. Ég var á allt öðrum stað en þeir. Það var mjög erfitt að átta sig á þessu. Að þetta yrði langt og erfitt verkefni sem maður átti framundan.”
Það var lítið framboð af íþróttum fyrir fatlaða á Ísafirði, þar sem Arna bjó. Fjórum árum eftir slysið fann að það var tómarúm í lífi hennar án íþrótta. „Ég kannski fann það á sjálfri mér að mig vantaði eitthvað. Mig vantaði einhverja hreyfingu og einhverja útivist líka”, segir Arna.
Þegar hún rakst á greinar um handahjólreiðar á netinu ákvað hún að panta sér handahjól og hefur ekki séð eftir því. „Ég held að það hafi verið frelsistilfinningin að komast langt og vera aðeins móð, að vera þreytt í fyrsta skipti í langan tíma. En ég fór náttúrulega ótrúlega hægt og stutt þarna fyrst.”
Arna er mikil keppnismanneskja og byrjaði í framhaldinu hjá einkaþjálfara enda þarf einkar mikinn styrk í efri hluta líkamans til að hjóla 20-40 kílómetra með höndunum. Fljótlega var hún farin að keppa í greininni víða um heim og vann Evrópumót í Abu Dhabi 2018. Nú hefur hún sett sér nýtt markmið þó að kórónuveirufaraldurinn hafi sett strik í reikninginn. Hún stefnir á að komast á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó í Japan á næsta ári.
„Ég þarf að komast í hóp svona fimm bestu í heiminum til að komast þangað inn. Ég er svolítið frá þeim núna. Ég er ekki búin að keppa í ár þannig að ég veit ekki hvernig staðan er á mér borið saman við þær. Ég hef verið smá frá því en ég finn mig alveg nálgast. Þetta er alveg raunhæft markmið að komast í þennan hóp. Þær sem eru kannski bestar í heiminum eru búnar að vera að æfa lengur en ég hef verið til. Þetta er úthaldsíþrótt þar sem fólk er svolítið lengi að ná toppnum og þær bestu eru á milli fertugs og fimmtugs þannig að ég á alveg góð 10 til 20 ár eftir. Þannig að það er ekkert stress,” segir Arna. Þáttökuréttur á Ólympíumótinu myndi gefa henni mikið. „Að ég geti náð markmiðum mínum. Að þessi vinna sé þess virði. Gefa mér stolt og fjölskyldunni og öllum vinum. Ég held að það myndi gera ótrúlega mikið.”