Arnar Helgi Lárusson var sjómaður þangað til hann lenti í mótorhjólaslysi í september 2002 þá 26 ára gamall og lamaðist frá brjósti og niður. „Ég var að æfa mig fyrir kvartmílu seint að kvöldi og misreikna mig eitthvað aðeins og tekið rönnið í öfuga átt og fer bara út af. Og lendi í grjóti og brýt sex hryggjarliði og kominn með mænuskaða,“ segir Arnar.
Þetta ástand ætlaði hann bara að leysa og byrja að ganga aftur. „Ég pældi ekkert í þessu að ég yrði einhver hjólastólamatur það sem eftir væri ævinnar. Það var enginn að hugsa um það og ég hugsa ekki einu sinni um það í dag.“
Arnar æfði því stíft og upp úr því var hann allt í einu orðinn afreksmaður í íþróttum. Hann hefur keppt í hjólastólakappi á heimsmeistaramótum og Evrópumeistaramótum og hefur náð því að vera 17. besti í heiminum. Hann smíðar sína eigin stóla, vinnur á gröfu og gerir allt sem hann langar til. Hann er þriggja barna faðir og segir lífið ekki geta verið betra.
Hægt er að sjá viðtalið í heild hér:
https://www.ruv.is/frett/vard-afreksithrottamadur-eftir-ad-hann-lamadist