Bar sigur úr býtum tveimur vikum eftir andlát sitt

Umboðsmaður Alþingis telur að úrskurðarnefnd velferðarmála og Sjúkratryggingum Íslands hafi ekki verið lagalega heimilt að synja konu um styrk fyrir hjálpartæki fyrir hjólastól. Konan lést tveimur vikum áður en umboðsmaður komst að þessari niðurstöðu. Forstjóri Sjúkratrygginga segir að stofnunin muni hlíta nýrri niðurstöðu.

Anna Guðrún Sigurðardóttir fæddist árið 1975. Hún fæddist með klofinn hrygg sem háði henni mikið alla tíð. Lengi vel gekk hún við hækjur en síðar fór hún nánast allra sinna ferða í hjólastól. Í byrjun árs 2018 sótti Anna Guðrún um styrk hjá Sjúkratryggingum Íslands til kaupa á aukahlut fyrir hjólastólinn sinn. Aukahluturinn er hand- og rafknúið hjól sem sett er framan á hjólastóla, og eykur möguleika þeirra sem þá nota á að stunda líkamsrækt, auk þess sem búnaðurinn auðveldar fólki að komast leiðar sinnar, til dæmis upp brekkur. Búnaðurinn kostar um 1,3 milljónir króna.

„Ótrúlega langsótt og mikil vanvirðing“

Sjúkratryggingar synjuðu umsókn Önnu Guðrúnar. Hún kærði þá afgreiðslu til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem komst að sömu niðurstöðu. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, vinkona Önnu Guðrúnar, var henni innan handar í þessari baráttu.

„Og það sem mér finnst svo afhjúpandi er að það er eins og þeir sem voru að taka á móti beiðninni hafi reynt að finna það eina sem var hægt að hanga á og túlka það sem svo að hún hafi ekki nauðsynlega þurft á þessu tæki að halda til þess að komast ferða sinna. Sem er ótrúlega langsótt og mikil vanvirðing við hreyfihamlað fólk,“ segir Anna Karólína.

Anna Guðrún gafst ekki upp og kvartaði til Umboðsmanns Alþingis, sem komst að sinni niðurstöðu á föstudaginn var. Í áliti Umboðsmanns segir að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi ekki verið í samræmi við lög. Sú afstaða nefndarinnar að Anna Guðrún hafi ekki uppfyllt skilyrði um að hjálpartækið teldist henni nauðsynlegt til að auðvelda athafnir daglegs lífs hafi ekki verið byggð á fullnægjandi grundvelli, né tekið mið af þeim röksemdum sem Anna Guðrún færði fram. Umboðsmaður beinir til því nefndarinnar að hún taki framvegis mið af þessum sjónarmiðum.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, segir í skriflegu svari til fréttastofu að stofnunin sé enn að fara yfir álit Umboðsmanns. Stofnunin muni „að sjálfsögðu“ hlíta því ef úrskurðarnefnd velferðarmála tekur beiðnina fyrir að nýju og kemst að nýrri niðurstöðu.

„Hún væri svo ánægð“

Anna Karólína vonar að málið hafi fordæmisgildi.

„Ég vona að menn geti reiknað það út, búið til reikningsdæmi, hvað það kostar að styrkja ekki og styðja ekki við þá sem vilja vera eins og við hin með okkar lífsgæði, að geta farið út að hreyfa okkur. Og hvað réttlætir það að segja við þig eða mig, af því að ég er hreyfihömluð, að ég þurfi ekkert svona tæki af því að það sé ekkert nauðsynlegt fyrir mig að hreyfa mig meira en að vera bara heima hjá mér?“

En Anna Guðrún náði ekki að fagna þessum sigri. Hún greindist með krabbamein í febrúar í fyrra, og lést af veikindum sínum 16. febrúar síðastliðinn, rétt rúmum tveimur vikum áður en umboðsmaður skilaði sínu áliti.

„Hún væri svo ánægð, og ekki bara fyrir sína hönd heldur ekki síður fyrir hönd annarra. Og hún var komin með íbúð við Fossvogsdalinn og hún væri bara úti núna strax, að fagna, og væri óstöðvandi í Fossvogsdalnum að styrkja sig,“ segir Anna Karólína.