Sagnfræðingurinn og SEMarinn Egill St. Fjeldsted gaf út bók fyrir jólin um krapaflóðin tvö sem skullu á Patreksfirði þann 22. Janúar árið 1983. Flóðin tvö féllu með stuttu millibili og afleiðingarnar voru að fjórir einstaklingar létu lífið.
Mikil eyðilegging blasti við og um tíma var óttast um að mannfallið hefði verið mun meira eða allt að 30 manns. Í kjölfar seinna flóðsins var bærinn rýmdur og gistu í kringum 500 manns á tveimur fjöldahjálparstöðvum um nóttina sem og í heimahúsum á öruggum stað.
Egill gerir þessum hamförum skil í fræðibók sinni og í gær barst honum óvænt persónulegt bréf frá Bessastöðum. Í bréfinu óskaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, honum til hamingju með vel unnið verk.
„Það er vandasamt að segja frá skelfilegum viðburðum af þessu tag, af hreinskilni en einnig með virðingu og nærgætni að leiðarljósi. Þetta fannst mér takast vel,“ skrifar Guðni.
Hann segist hafa hugsað til bókarinnar þegar að aurskriðurnar skullu á byggðina í Seyðisfirði fyrir jólin. „Blessunarlega varð ekki mannskaði þá fyrir liggur að engu mátti muna í þeim efnum.“
Í bréfinu sagði Guðni að ljóst væri að reynsla landsmanna af náttúruhamförum knúi stjórnvöld til að sinna betur þeim vörnum sem hægt er að koma upp á hverjum stað. „Jafnframt er brýnt að til séu frásagnir af þeim hamförum sem dynja yfir. Þú átt þakkir skildar fyrir þinn þátt á þeim vettvangi,“ skrifar Guðni.
Egill deildi bréfi forsetans á Facebook-síðu sinni og greinilegt er að það kom honum í opna skjöldu. „Án efa mun mér þykja vænt um það til æviloka, auk þess sem það mun hvetja mig til að halda áfram á sömu braut,“ segir Egill í færslunni.