Egill Fjeldsted

Egill Fjeldsted gefur út bók um krapaflóðin á Patreksfirði 1983

Fjórir létust og nítján hús skemmdust í snjóflóðunum sem féllu á Patreksfirði með skömmu millibili 22. janúar árið 1983. Flestir bæjarbúar voru að hafa sig til fyrir þorrablót sem átti að fara fram um kvöldið þegar skelfingin dundi yfir. Egill Fjelsted man glögglega eftir þeim atburðum enda alinn upp á Patreksfirði. Á meðal þeirra sem létust var systir vinar Egils en sjálfur slapp hann naumlega.

Í þættinum Okkar á milli á RÚV sagði Egill frá sjálfum sér, bílslysi sem hann lamaðist í þegar hann var 24 ára og þeirri tilviljun sem réð því að hann varð sjálfur ekki undir krapanum. Egill lærði sagnfræði í Háskóla Íslands og BA ritgerðin hans í náminu endaði sem bók um flóðin.

Slapp naumlega en systir félaga hans lést

Eftir að lokið hafði verið við aðgerðir vegna flóðanna segir Egill að atburðirnir hafi verið þaggaðir niður í samfélaginu. „Þeir sem tóku þátt í björgunaraðgerðunum voru að grafa upp fólk, vini og ættingja, og svo fóru þeir heim og það var ekkert meira rætt um það,“ segir Egill. Slíkt hafi tíðkast á þessum tíma.

Hann þekkti sjálfur fólkið sem lenti í flóðinu sem hafnaði 20-30 metra frá æskuheimilinu og hann gat séð það út um eldhúsgluggann. „Einn félagi minn var grafinn upp og systir hans dó. Ég slapp naumlega sjálfur,“ segir hann.

Man eftir þyrlu og svo var það gjörgæsla

Tíu árum síðar varð Egill fyrir öðru áfalli þegar ökumaður í bíl sem hann var farþegi í missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að farþegar slösuðust og Egill lamaðist.

„Ég var bara ungur og frískur maður sem bjó á Ísafirði. Var farþegi í bíl sem er á leið á Patreksfjörð að horfa á kraftakeppni,“ rifjar hann upp. Skemmtiferðin varð að martröð. Egill man eftir að þeysast út úr ökutækinu á mikilli ferð og kveðst hafa hafnað úti í móa. „Svo man ég bara næst þyrla og svo var það gjörgæsla.“

Viltu loka þig af í svartnætti eða sjá góðu hliðarnar?

Eftir viku á gjörgæslu hófst endurhæfing hjá Agli og þá segist hann hafa byrjað að átta sig á því sem fram undan væri. Hann tók þá ákvörðun að vera jákvæður og þakklátur fyrir að ekki fór verr.

„Þú veist í hvaða sporum þú ert og þá er það bara: Viltu loka þig af í svartnætti og sjá allar dökku hliðarnar eða viltu bara vera opinn og sjá góðu hliðarnar?“ segir hann sem valdi að eigin sögn þær björtu með því að „taka þátt í að hitta vini og fjölskyldu, fara út um allt og gera allt sem mann langar að gera.“

Áhugasamir geta pantað bókina hjá Agli í s. 896-4664 eða sent honum línu á Facebook.