Vill engin forréttindi, bara sömu réttindi og aðrir

Vil engin forréttindi

– bara sömu réttindi og aðrir

Arnar Helgi Lárusson lenti í hræðilegu vélhjólaslysi fyrir átján árum síðan, í september 2002, sem skyldi hann eftir lamaðan frá brjósti og niður. Strax eftir slysið fór hann í að byggja sig upp. „Ég er pínu ofvirkur, hef ekki verið greindur en konan mín segir að ég myndi sprengja alla skala. Ég kann ekki að stoppa. Þegar ég slasaðist var talið mjög eðilegt að vera svona eitt ár á Grensás, einhvern tímann hafði einhver verið átta mánuði – ég var fluttur heim eftir þrjá.“ Þetta segir meira en mörg orð um ákveðni og viljastyrk Arnars Helga sem hefur náð frábærum árangri sem íþróttamaður og verið ötull í baráttu sinni fyrir réttindum fatlaðra.

„Við vorum búin að koma okkur fyrir á Berginu en fluttum í bæinn fyrst. Mér leið aldrei vel í Reykjavík en svo fluttum við aftur hingað og hér vil ég vera, mér líður ótrúlega vel hérna suður frá. Hér þekkja mig margir, enn fleiri eftir slysið, og ég er ekki að finna fyrir neinni vorkunn. Mér er bara tekið eins og jafningja, það er það sem maður vill.“

„Ég er þakklátur fyrir að hafa verið þó orðinn þetta fullorðinn þegar ég lenti í slysinu, 26 ára gamall, fullmótaður og ákveðinn einstaklingur. Það er heilmikill munur að vera tíu ára og lenda í svona, eða fæðast svona. Það breyttist hellingur við slysið en í raun og veru breyttist ekki neitt. Ég er ennþá með sömu konunni, á mitt sama net ennþá. Fyrir utan það að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur í staðinn fyrir að grenja yfir því sem þú hefur ekki. Einum sentimetra ofar og ég hefði ekki hendurnar. Ég er það hátt lamaður. Fyrst um sinn var ég ekkert að hreyfa hendurnar, þegar ég lá þarna í götunni gat ég ekkert beitt þeim en svo kom það til baka.“

Verður yngri með íþróttunum

Eins of fyrr segir hefur Arnar Helgi náð undraverður bata og þakkar hann það íþróttunum fyrst og fremst.

„Það halda margir að ég sé lamaður frá mitti en ég er lamaður héðan,“ segir Arnar og bendir á brjóstið á sér. „Aðeins sentimetri í viðbót og ég hefði misst máttinn í höndunum líka. Ég hef byggt mig upp í gegnum árin og fer alltaf lengra í ár en ég fór í fyrra. Íþróttirnar hafa gefið mér það að ég er að yngjast. Það er ótrúlegt hvað þær gefa mér mikið, bara möguleikann á að halda áfram lífinu. Ég var ekki íþróttamaður áður en ég lenti í slysinu en var alltaf í góðu formi, hafði gaman af því að hlaupa og hafði stundað einhverjar lyftingar en aldrei neinar alvarlega íþróttir. Ég byrjaði í skellinöðrunum tólf ára gamall og svo breyttist það í stærri hjól, það var sportið sem ég hafði ótrúlega gaman að. Ég hef líka gaman af vinnu og er vinnuhestur, það tek ég með mér inn í íþróttirnar. Ég er kannski ekki besti íþróttamaðurinn – en ég nenni. Ég set mér eitthvað markmið og svo bara held ég áfram. Það er það sem ég græði á, ég sest alltaf aftur í stólinn og held áfram. Ef ég næ ekki markmiðinu þá bara lengi ég tímann, ég hætti ekki.“

Mikill keppnismaður

„Það var í raun ekki fyrr en 2012 sem ég byrjaði að keppa. Ég byrjaði fyrst bara að lyfta og venjulegri hreyfingu, var fyrstu árin að reyna að ganga. Eyddi mörgum árum í að reyna að ganga á spelkum, úr því verður eiginlega íþróttamaðurinn. Ég fór að ýta mér í stólnum hérna innabæjar, úr Njarðvíkunum yfir í Keflavík. Svo var ég búinn að ákveða að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu en ég sagði engum frá því, þá gæti ég bara ýtt mér út úr því og enginn myndi vita. Sóley, konan mín, hjólaði með mér og það voru eitthvað um átta hundruð manns skráð í heilt maraþon. Þarna var einhver 85 gamall karl sem var elstur og ég hugsaði bara að ég ætlaði ekki að verða síðastur, ég setti mér það takmark að verða ekki síðastur. Það voru tvö hundruð manns á eftir mér í mark – og ég á venjulegum hjólastól. Ég hafði aldrei farið maraþon áður, kannski farið fimmtán, tuttugu kílómetra, og þegar ég var búinn með svona þrjátíu kílómetra fannst mér eitthvað vera að. Mér fannst ég ekkert komast áfram og hélt að eitthvað hefði flækst í stólnum en það var ekkert, ég lenti bara á vegg og eftir svona fimm kílómetra komst ég yfir það. Ég kláraði maraþonið á eitthvað um fimm tímum, 42 kílómetrar í hjólastól, á höndunum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og besti löglegi tíminn minn í maraþoni í dag er 2:02 á keppnishjólastól, ég hef reyndar farið á 1:48 en ekki í keppni. Bestu hlauparar í heimi eru að fara maraþon á eitthvað um tveimur tímum, við erum miklu hægari en þeir af stað en viðhöldum hraðanum betur.

Ég var í race-inu þar til fyrir svona þremur árum síðan. Þá lenti ég í því að eftir æfingu fór ég í bað og var að teygja á mér. Ég setti fótinn í ákveðna stellingu og tók svolítið vel á því sem endaði á að ég tók lærlegginn í sundur, braut hann. Ég var nýkominn úr axlaraðgerð og þá voru góð ráð dýr. Ég var auðvitað tekinn og negldur. Tveimur vikum síðar var ég kominn upp í flugvél, flaug til Englands og keypti mér notað reiðhjól sem ég flutti til Íslands og byrjaði að hjóla. Þetta var svona liggjandi hjól sem ég ætlaði að nota til að hjóla og sem æfingadót. Svo var ég bara smátt og smátt að festast í hjólinu því hjólið er íþróttalega séð hvorki auðveldara né erfiðara en hjólastóllinn, hins vegar er allt í kringum hjólið einfaldara. Það fer betur með líkamann og allt í kringum stólana, varahlutir o.þ.h., er miklu dýrara. Svo var ég alltaf með race-erinn í höndunum meðan hjólið er miklu sterkara og ég get farið á næsta hjólreiðaverkstæði til að láta gera við í staðinn fyrir að gera það sjálfur. Þannig að ég er alfarið kominn í hjólreiðarnar núna þótt ég sé ekki enn búinn að taka þátt í neinni keppni. Ég veit að ég er kominn á mjög góðan stað, er búinn að vera á flugferð í vetur og finn bara hvernig það er að koma upp. Um leið og losnar um höftin út af þessari veiru bóka ég mig í mót úti. Hérna heima eru engir til að keppa við en erlendis eru hjólreiðar fatlaðra í mikilli sókn.“

Arnar Helgi æfir á hverjum degi í æfingaaðstöðu sem hann hefur útbúið í risinu á heimili sínu í Njarðvík. Hann hefur náð þeim markmiðum sem hann setti sér í ár þrátt fyrir bakslag í byrjun árs þegar alls kyns kvillar fóru að hrjá hann.

„Þessi árangur er auðvitað bara tilkominn af síendurteknum æfingum. Ég mæti hérna á hverjum morgni, sama hvernig mér líður. Ég bara sest og byrja að æfa, ég æfi í hjólinu svona tólf tíma á viku. Svo eru alls kyns aukaæfingar, eins og teygjur og styrktaræfingar.

Ég huga vel að mataræðinu, er ekki vegan en reyni frekar að fá prótein úr baunum o.þ.h. en kjöti. Svo borða ég fisk, grænmeti og kolvetni á löngum æfingum. Ég hef alltaf verið alæta en, eins og ég segi, er farinn að minnka kjötátið.“

Víða pottur brotinn í aðgengismálum fatlaðra

Talið berst nú að þeim baráttumálum sem Arnar Helgi hefur beitt sér fyrir. Hann hefur verið óþreytandi að vekja máls á aðgengismálum fatlaðra, sér í lagi í sinni heimabyggð.

„Ég hef farið þrisvar eða fjórum sinnum hringinn í kringum landið með félaga mínum, Guðjóni Sigurðssyni hjá MND-samtökunum, þar sem við höfum verið að heimsækja skóla og ræða aðgengismál. Höfum verið að fá krakkana til að taka þátt í að skoða sitt nærumhverfi með aðgengi í huga. Skólar sækja um að taka þátt og hérna á Suðurnesjum hafa eingöngu Njarðvíkurskóli tekið þátt Heiðarskóli – eða alla vega meðan við unnum í þessu verkefni.“

– Hvernig er staðan á aðgengismálum í skólum hérna?

„Það er mjög bágt. Aðgengi hér á Suðurnesjum er mjög lélegt og hefur verið, og er, illa sinnt. Sérstaklega hérna í Reykjanesbæ – og það er bara metnaðarleysi hjá stjórnsýslunni hér um að kenna. Það er því miður synd.“

– Þá kannski bæði hjá stjórnsýslunni og einkaaðilum?

„Þetta liggur hjá stjórnsýslunni, ekki einkaaðilum. Það eru lög og reglur í landinu. Einkaaðilar sem eru að byggja sína starfsemi reyna að gera það á sem hagkvæmastan hátt. Það er stjórnsýslan sem gefur út leyfi og á að fylgja því eftir að farið sé að lögum.

Ég man eftir því að hér var verið að opna hótel og það var ekki lyfta í því. Ég benti á að það væri ekki hægt að leyfa opnun á því nema lyfta væri til staðar. Rökin sem ég fékk frá byggingafulltrúa Reykjanesbæjar var að hótelið hefði aldrei verið opnað ef það hefði þurft að setja lyftu. Þarna var aðili að breyta gömlu iðnaðarhúsnæði í hótel og að setja lyftu var aðeins brot af kostnaðinum. Ef hann hafði ekki efni á að setja lyftu þá hafði hann ekki efni á að opna staðinn. Samkvæmt lögum verður að vera lyfta á svona stöðum. Þetta er pólitík sem viðgengst hér, að leyfa hlutum að sleppa í gegn.“

– Fórstu strax í þessa baráttu fyrir bættu aðgengi?

„Það gerðist eiginlega eftir að við eignuðumst fyrsta barnið. Fram að því fórum við hjónin bara á þá staði sem höfðu hjólastólaaðgengi en eftir að barnið fæddist þá þurfti ég að fara á þá staði sem barnið þurfti að fara á – sama hvort mér líkaði það betur eða verr. Margir af þessum stöðum höfðu ekkert aðgengi fyrir hjólastóla, eins og leikskólinn. Þegar ég benti á þetta var ein hurð löguð, svo ég komst inn á einum stað en ekkert lengra.

Fljótlega byrjaði þessi barátta hjá mér og hún hefur bara ágerst. Ég er búinn að reyna góðu leiðina, að vinna með yfirvöldum. 2006 fór ég alla Hafnargötuna með bæjaryfirvöldum og sýndi þeim hvað væri ábótavant og það átti að gera eitthvað – en það gerist bara ekkert, þetta gerist á hraða snigilsins. Verandi eins og ég er, svolítið óþolinmóður, þá er ég ekkert tilbúinn að bíða bara. Af hverjum lögum við þetta ekki bara? Svo ég lagðist í lestur og kann núna byggingareglugerðir utan af. Fólk er alltaf að fara í kringum hlutina, túlka sér í hag það sem stendur ekki í reglugerðum og hefur komist upp með það. Við erum alltaf tuttugu, fjörutíu árum á eftir Bandaríkjamönnum í svona málum, þeir hafa bara kært þegar hlutirnir eru ekki í lagi. Núna erum við komin þangað. Erum byrjuð að negla kærur inn. Ég er búinn að tapa í héraði og hæstarétti, sem kom mér ekkert verulega á óvart en var mjög svekktur með það, en ég er ekki að fara að tapa í Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég get lofað þér því, því ég veit að þetta eru mál sem eru að vinnast út um allan heim. Það er ekkert spurning hvort heldur hvenær. Það versta við þetta er, að fyrst að Reykjanesbær tekur ekki bara af skarið og lagar sína hluti þá eiga þeir eftir að taka höggið – og höggið verður ekkert lítið, það verður stórt.“

Vill sömu réttindi og aðrir

„Mannréttindadómstóllinn er búinn að taka mál mitt, sem snýr að aðgengi í Duus-húsunum og 88-húsinu, inn og svo er það bara í röðinni. Þetta eru bara tvö hús sem voru valin af handahófi, af nógu er að taka. Ef ég á að nefna einhver rök fyrir því að þessi hús voru valin þá eru fjölmörg fötluð og hreyfihömluð börn á Suðurnesjum – og hverjir eru líklegri til að verða útundan í þessu samfélagi en börn á þessum aldri? Að bjóða upp á ungmannamiðstöð sem er óaðgengileg hreyfihömluðu fólki. Ég meina, það var sett upp róla fyrir hreyfihamlaða fyrir utan 88-húsið, svo getur liðið bara farið heim til sín ef það þarf að fara á klósettið. Það er ekki einu sinni hægt að komast á klósettið ef þú ert í hjólastól. Það er verið að gera grín að fólki sem er hreyfihamlað, eins og það skipti engu máli. Það skiptir bara jafn miklu máli og næsti einstaklingur, ekki meira máli eða minna máli. Nákvæmlega sama máli.

Hverjir eru líklegastir til að vilja skoða byggðasafn? Það er eldra fólkið. Svo er byggðasafn sett upp á þriðju hæð í Duus-húsum, með snarbröttum stiga. Sérðu eldra fólk fyrir þér fara upp þessa stiga? Ég segi það, ef það var ekki peningur til að setja lyftu þá var ekki til peningur til að opna þetta safn. Það engin afsökun að ekki séu til peningar. Ekki opna það, ekki bjóða upp á það ef það er ekki hægt að bjóða öllum.

Ég borga mína skatta hér eins og allir aðrir. Ekkert minna, kannski meira. Ég þarf að fara með dóttur mína í tannréttingar til Reykjavíkur, taka mér frí frá vinnu í staðinn fyrir að geta skotist hérna innanbæjar. Hér er ekkert aðgengi í tannréttingar fyrir fatlaða. Ef ég ætla að fara með fjölskylduna í bíó þarf ég að fara í Smárann. Ég byggði mér stórt hús af því að ég er hreyfihamlaður, þá borga ég bara hærri fasteignagjöld. Ég vil ekki fá neitt frítt en allur þessi aukakostnaður leggst á mig af því að ég er fatlaður. Ég vil bara fá það sama og aðrir, það má vel vera að ég sé bara frekur – en mér er bara alveg sama,“ segir Arnar Helgi sem er augljóslega ekkert á þeim buxunum að leggja árar í bát.