SEM logo

SEM logo

SEM logo

Aðalfundur SEM og H-SEM var haldinn 28. maí síðastliðinn. Í upphafi fundar bauð Arnar Helgi Lárusson formaður SEM alla velkomna. Að því búnu las hann upp skýrslu stjórnar SEM. Kom þar meðal annars fram að Jafningjafræðsla á Grensásdeild hefi gengið vel í vetur, þar til COVID-19 setti strik í reikninginn. Allmargir hafi nýtt sér hana og vel sé látið af henni jafnt hjá nýslösuðum, fjölskyldum þeirra, fagfólki og öðrum. Einnig kom fram að í júní í fyrra hefði SEM haldið hjólastólanámskeið í Þorlákshöfn. Stóð námskeiðið yfir í sex daga og heppnaðist einstaklega vel. Enn fremur kom fram í máli Arnars að SEM hefði skilað inn allmörgum kvörtunum til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar vegna brota byggingaraðila á hæð þröskulda í nýbyggingum. Í kjölfarið hafi hann hitt húsnæðismálaráðherra og farið yfir málið með honum. Í skoðun sé að fara í dómsmál með eitthvert þessara mála, svo þetta atriði verði í lagi í nánustu framtíð. Að lokum kom fram í máli hans að settur hafi verið saman samráðshópur til að endurskipuleggja og koma með drög að framtíðarstefnu SEM í húsnæðismálum.

Næstur á mælendaskrá var Árni Geir Árnason sem flutti skýrslu stjórnar H-SEM. Í meginatriðum kom fram í máli hans að lokið hafi verið við meiriháttar breytingar tveimur íbúðum á Sléttuvegi 3. Þar sem haft var að leiðarljósi nútíma kröfur um aðgengi. Að lokum kom fram í máli hans að hið árlega happdrætti hefði gengið vonum framar, sem auðveldi allan rekstur félagsins.

Þegar skýrslur höfðu verið fluttar var kosið í hinar ýmsu stjórnir og nefndir. Má þar helst nefna að Jóna Marvinsdóttir gekk úr stjórn H-SEM og í hennar stað kom Jóhann Rúnar Kristjánsson. Þökkum við Jónu kærlega fyrir vel unnin störf á liðnum árum.

Alls mættu 19 manns á fundinn, sem verður að teljast gott miða við ástandið í þjóðfélaginu vikurnar á undan.

 

Aðalfundur SEM og H-SEM verður haldinn á morgun fimmtudaginn 28. maí kl. 18:00 í sal SEM hússins að Sléttuvegi 3. Léttar veitingar í lok fundar.
Meðal efnis á dagskrá:
Skýrsla stjórnar, kosið í nefndir og venjuleg aðalfundarstörf.
Kveðja,
Stjórnin

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 28maí 2020 kl. 18:00

í salnum í SEM húsinu að Sléttuvegi 3.

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi samkvæmt samþykktum félagsins:

a) Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

b) Skýrsla stjórnar H-SEM.

c) Skýrslur annara nefnda eða fulltrúa félagsins.

d) Endurskoðaðir reikningar félagsins.

e) Reikningar H-SEM lagðir fram til kynningar .

f) Árgjald félagsins ákveðið.

g) Lagabreytingar.

h) Kosning stjórnarmanna fyrir þá sem lokið hafa setu í stjórn.

i) Kosning fulltrúa í H-SEM fyrir þá sem lokið hafa kjörtímabili.

j) Kosning fulltrúa í aðastjórn ÖBÍ og 2 varamenn.

k) Kosning í fulltrúaráð ÖBÍ; 2 fulltrúar og 2 til vara.

l) Kosning skoðunarmanna ársreikninga SEM

m) Kosning í orlofshúsanefnd.

n) Kosning fjáröflunarnefndar.

o) Kosning annara nefnda.

p) Önnur mál.

r) Starfstilhögun nýkjörinnar stjórnar.

 

Bestu kveðjur og vonandi mæta sem flestir

Stjórnin.

Við hjá SEM samtökunum höfum áhyggjur af þessari Coronaveiru og spurðum Pál Ingvarson lækni á Grensás eftirfarandi spurningar svo við gætum upplýst félagsfólk.

  1. Er fólk með mænuskaða útsettara til að veikjast?
  2. Er veiran að legjast harðar á fólk með mænuskaða?
  3. Eru komnar einhverjar leiðbeiningar hvernig fólk með mænuskaða á að haga sér í svona aðstæðum?
  4. Er vitað til að fólk með mænuskaða hafi fengið veiruna?
  5. Hvernig hefur gengið að lækna fólk með mænuskaða sem fengið hefur veiruna?

Við fengum eftirfarandi svar 19. mars 2020:

Takk fyrir góðar (relevant) spurningar.

Svör við spurningum 1 og 2 eru afdráttarlaust: Nei.

Það eru eldri einstaklingar (einkum um og yfir 80 ára) og einstaklingar með skerta ónæmissvörun - annað hvort vegna sjáfsofnæmissjúkdóma (autoimmune disorders) eða fólk sem er á sterum eða öðrum enn meiri ónæmisbælandi lyfjum, sem eru hlestu áhættuhóparnir.

Þar að auki er óheppilegt fyrir fólk með alvarelega lungnasjúkdóma að veikjast, það er verr statt, EF þeir fá alvarlegasta form veriunnar, sem sest í öndunarfærin og veldur lungnabólgu.

Sem sagt: Það er hugsanlegt, að háir háslmænuskaðar og einstklingar sem eru farnir að nálgast 70-80 ára aldur eða meir geti átt von á eitthvað erfiðari veikindum ef þeir skyldu smitast, en fyrir utan þessi mjög svo afstæðu undantekningatilfelli sé ég ekki að það sé nein aukin áhætta fyrir einstaklinga með mænuskaða.

Í þessu samhengi er líka gott að minnast orða Egils heitins Stefánssonar, að einstaklingar með mænuskaða eru ekki sjúklingar, heldur fullfrískir einstaklingar með hreyfihindrun.

og svo skil ég ekki uplysingar frá að mér skilst bresku mænuskaðasamtökunum:

"We are seeking confirmation that the NHS consider and therefore will respond to SCI people as 'a high risk category' in relation to the Coronavirus and its likely impact, as many SCI people have a reduced immune system and/or respiratory issues that make them more susceptible to respiratory infections. This will mean all advice and support through 111 and 999 will be treated as a priority case."

Ég er hreinlega alls ekki sammála staðhæfingunni "as many SCI people have a reduced imune system" Mér finnst þetta vera sérkennilegaur hræðsluáróður, sem byggist ekki á staðreyndum (en svo er líka mjög margt, of eða van, sem kemur frá Bretlandi í COVID1-málum almennt - stórmerkilegar og sérkennilegar sveiflur í öllu frá afneitun tiil paník ...)

Þar af leiðandi eru svarið við spurningum 3-5 nei, eða, öllu eldur, ég veit ekki hvernig einkennamyndin hjá einstaklingum með mænuskaða sem hafa fengið COVID19 hefur verið, eða hvort hún hafi verið eitthvað frábrugðin einkennamynd hjá almenning á sama aldri en án mænuskaða. Það hafa örugglega einhverjir einstklingar með mænuskaða veikst, einhvers staðar í heiminum, en mér tókst ekki að finna neinar upplýsingar um það í minni fyrstu leit á vefnum og ég hefði örugglega verið búinn að heyra eitthvað (og þið líka!) ef einhver íslendingur með mænuskaða hefði veikst.

Og þar til annað kemur í ljós finnst mér að einstaklingar með mænuskaða eigi að fylgja almennum fyrirmælum heilbrigðsiyfirvalda, vera nákvæmir með að þvo sér um hendur og spritta sig, og hafa almennu reglurnar til að forðast smit í hávegum. Þar finnst mér - eins og öllu samstarfsfólki innan hielbrigðistéttarinnar sme ég hef talað við um þessi mál - íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðið sig með eindæmum vel: frábærlega aðgengileg, með skýr og lógísk svör við öllum spurningum og skynsamar ráðleggingar.

Bestu kvðejur,

Palli Ingvars, Grensási.

Ágæti félagsmaður SEM

Opnað verður fyrir umsóknir í orlofsíbúð SEM á Kjarnagötu 41, Akureyri,

á morgun föstudaginn 6. mars

Útleigutímabil er frá mánudeginum 25. maí 2020 til og með

mánudagsins 24. ágúst 2020.

Félagsmenn geta farið inn á www.orlof.is/sem og skráð sig inn með Íslykli

eða Rafrænum skilríkjum, fylla skal út sumarumsókn með allt að 6 valmöguleikum.

Einnig er hægt að fara inn á www.sem.is /Upplýsingar/ og þar undir í Orlofsíbúð.

Umsóknarfrestur er til miðnættis mánudagsinns 30. mars 2020.

Úthlutað verður 31. mars samkvæmt punktakerfi.

Niðurstaða verður tilkynnt með tölvupósti til félagsmanna sem sækja um.

Orlofsnefnd SEM

Búið er að draga út vinningstölur úr happdrætti SEM samtakanna 2020.

Undanfarna áratugi hafa SEM samtökin staðið fyrir happdrætti sem hefur verið ein helsta tekjulind samtakanna. Ágóðinn hefur m.a. stuðlað að uppbyggingu á húsnæði fyrir fólk með mænuskaða og réttindabaráttu af ýmsum toga.

Við þökkum öllum sem tóku þátt í happdrættinu kærlega fyrir ómetanlegan stuðning, án ykkar væru SEM samtökin ekki til í núverandi mynd.

Athygli er vakin á að vinninga ber að vitja innan árs.
Frekari upplýsinga má nálgast í síma 588-7470
Meðfylgjandi vinningaskrá:

Skoða vinningaskrá...

Dregið verður í happdrætti SEM á morgun, föstudaginn 21. febrúar. Um leið og tölur berast í hús verða þær birtar hér á síðunni. Samkvæmt fyrri reynslu gæti það dregist fram að kvöldmat, en vonandi fyrr.

SEM þakkar miðahöfum kærlega fyrir þátttökuna.

Stjórn SEM samtakanna bendir félagsmönnum á að hægt er að sækja um hinn árlega íþróttastyrk til 29. febrúar n.k. Eftir þann tíma fellur réttur til greiðslu niður. Athygli er vakin á að styrkurinn nær einnig yfir nudd, sjúkraþjálfun og annað sambærilegt.
 Hámarksupphæð er 20.000 kr. Til að eiga rétt á styrk þarf félagsmaður að hafa greitt félagsgjöld síðastliðið ár og skila inn greiðslukvittun. Einnig þarf að fylla út umsóknareyðublað sem nálgast má á skrifstofu SEM og á sem.is, undir styrkir. Umsókn skilast á skrifstofu og verður tekin fyrir á næsta stjórnarfundi.
 Vinsamlegast athugið að eitthvað ólag er á rafrænum skilum í gegnum heimasíðu sem.is
 Skrifstofan er opin á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 13.00-15.30.
Stjórn SEM

Fimmtudaginn 19. desember veitti Sorpa fjölmörgum félagasamtökum glæsilega styrki við hátíðlega athöfn. SEM samtökin voru í þeim hópi og kom í okkar hlut 1.000.000 kr. Styrkurinn mun verða notaður næstkomandi sumar í hjólastólanámskeið, sem verður með áþekku sniði og námskeið sem var haldið við góðan orðstír í Þorlákshöfn síðastliðið sumar.

Styrkur eins og þessi er SEM ómetanlegur til að geti sinnt brýnum verkefnum fyrir félagsmenn.

SEM þakkar Sorpu kærlega fyrir góðvild í okkar garð og óskar starfsfólki fyrirtækisins gleðilegra jóla.

 

Hið árlega happdrætti til styrktar SEM samtökunum er hafið og verð sölumenn á okkar vegum í öllum betri búðum. Miðaverð er það sama og undanfarin ár, 2.000 kr. Dregið verður 22. febrúar 2020.

Eins og ávallt eru glæsilegir skattfrjálsir vinningar í boði. Fyrsti vinningur er gullfalleg Kia Stonic X, sjálfskiptur, að verðmæti 3.640.777 kr. Heildarverðmæti allra vinninga er 34.341.347 kr.

Auk þess eru 412 vinningar í pottinum:

2.- 22. 21 x Fartölvur frá Tölvulistanum. Hver að verðmæti 100.000 kr.

23.- 347. 325 x Ferðavinningar frá Heimsferðum. Hver að verðmæti 80.000 kr.

348.- 367. 20 x Gjafabréf frá Tölvulistanum. Hver að verðmæti 50.000 kr.

368.- 413. 46 x JBL Extreme 2 Bluetooth hátalarar frá Tölvulistanum. Hver að verðmæti 34.795 kr.

Með kaupum á happdrættismiða SEM ertu að styrkja starfsemi félagsins, sem felst meðal annars í að veita einstaklingum sem hafa hlotið mænuskaða margs konar fræðslu, aðstoða við íbúðamál, íþróttastyrki o.s.frv. Hægt að greiða heimsenda miða með meðfylgjandi gíróseðli. Athylgli er vakin á að ekki er lengur hægt að greiða gíróseðla í heimabanka Íslandsbanka.

 

Í gær, miðvikudaginn 20. nóvember, tók Arnar Helgi Lárusson formaður SEM samtakanna við ómetanlegri gjöf að upphæð 4.050.000 frá stúkum innan Oddfellow í tilefni 200 ára afmælis reglunnar. Stúkurnar sem lögðu gjöfina til eru: Hallveig, Þorkell máni, Þorfinnur karlsefni, Sigríður, Þorgerður og Þorbjörg.

SEM samtökin þakkar öllu því góðhjarta fólki sem starfar innan þessara stúkna kærlega stuðninginn.

Gjöfin gerir SEM kleift að standa undir nauðsynlegu viðhaldi á íbúðum á Sléttuvegi 3, sem í flestum tilfellum eru í slæmu ástandi vegna aldurs og ágangs.

Á meðfylgjandi mynd tekur Arnar Helgi við gjöfinni úr hendi tveggja fulltrúa Oddfellow.

Fróðleiksfúsum er bent á heimasíðu Oddfellow, en þar má til dæmis fræðast um hvað Oddfellow stendur fyrir, regludeildir og söguágrip. Auk þess má fræðast um fjölmörg mannúðarmál sem Oddfellow hefur beitt sér fyrir á síðustu áratugum.

Sjá: https://www.oddfellow.is/is

73321459 1416982538467457 7927271324920053760 o

Í gær, föstudaginn 1. nóvember var þriðja endurbyggða íbúðin í SEM húsinu, Sléttuvegi 3, afhent ánægðum leigjanda. Framkvæmdir hófust af fullum krafti í byrjun september og stóðust allar tímaáætlanir. Íbúðin var í mjög slæmu ástandi líkt og margar aðrar í húsinu eftir 30 ára notkun og lítið viðhald, vegna skorts á fjármagni.

Íbúðin var tekin í gegn með sambærilegum hætti og áður. Í því felst að skipt var um allt innandyra eins og til dæmis: gólfefni, innréttingar, eldhústæki og rennihurðar settar í veggi. Einnig var veggur brotinn niður og skipan eldhúss breytt til að búa til opið rými, sem hentar fólki í hjólastólum betur. Íbúðin er nú eins og ný og stenst allar nútíma kröfur um aðgengi og útlit.

Eins og áður hefur komið fram fengu SEM samtökin í vor veglegan 7.000.000 styrk frá Rebekkustúku nr. 1, Bergþóru I.O.O.F., Kertasjóði Soffíu J. Claessen og Systra og sjúkrasjóði. Enn og aftur þökkum við félagsmönnum þessara samtaka kærlega fyrir stuðninginn, en án hans hefðu breytingar á íbúðinni ekki farið fram.

Auk þess þökkum við öllum vertökum sem komu að verkefninu kærlega fyrir góða samvinnu og vönduð vinnubrögð.

 

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323